Sagan

Félag áhugamanna um stofnun skrímslaseturs á Bíldudal var stofnað árið 2007 af sjö áhugamönnum sem leggja vildu Bíldudal lið í viðleitni til að auka framboð á atvinnu og laða að ferðamenn. Setrið skyldi gera þeim þjóðararfi skil sem felst í sögnum af skrímslum víðs vegar um landið, ekki síst úr Arnarfirði.
Félagið festi kaup á gömlu iðnaðarhúsnæði, þar sem Bíldudals grænar baunir voru áður framleiddar. Það var í mjög slæmu ástandi og ljóst að það þyrfti kraftaverk til þess að koma því í stand. Leitað var til brottflutta Arnfirðinga og heimamanna um aðstoð og var Grettistaki lyft. Hátt í eitthundrað sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í verkefninu og skilað yfir 3.000 vinnustundum. Þessi ótrúlega þátttaka og mikli samtakamáttur var meðal annars kveikjan að því að Gísli Einarsson sjónvarpsmaður tók verkefnið fyrir í þætti sínum Út og suður.

Hvers vegna skrímslasetur á Bíldudal?
Flestir félagsmenn ólust upp við frásagnir af fjörulöllum og öðrum kynjaskepnum í Arnarfirði. Þeir töldu að þær gætu verið kjörin afþreying fyrir ferðamenn sem hefðu áhuga á að kynna sér menningu og sögu svæðisins og jafnvel fengið þá til að staldra lengur við.

Við undirbúning var leitað til Þorvaldar Friðrikssonar „skrímslafræðings Íslands“ sem hefur safnað skrímslasögum um tuttugu ára skeið. Í fórum hans má finna hátt í fjögurþúsund frásagnir frá öllum landshlutum. Samkvæmt rannsóknum hans sker Arnarfjörður sig úr hvað varðar fjölda sagna og tegunda og má því segja að staðsetning fyrir skrímslasetur sé hvergi betri en á Bíldudal.

Mjög metnaðarfullt verkefni
Lagt var af stað með það að leiðarljósi að verkefnið yrði svo vandað að ferðamenn kæmu sérstaklega til þess að skoða það. Til að svo mætti verða voru Árni Páll Jóhannsson leikmyndahönnuður og Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín sem eru meðal fremstu sérfræðinga landsins í hönnun og smíði safna fengnir til liðs við verkefnið sem byggt yrði á sögum Þorvaldar.

Uppbygging húsnæðisins hófst strax og samhliða var unnið við hönnun sýningarinnar. Fjármögnun gekk vel allt fram að hruni bankanna en með elju og útsjónarsemi tókst að opna fyrsta hluta Skrímslasetursins í lok júní 2009, um mánuði síðar en áætlað var í upphafi.

Sýningin:
Sýningunni er ætlað að hafa hvorutveggja skemmtana- og fræðslugildi og er sögunum gerð góð skil á spennandi og nýstárlegan hátt. Á margmiðlunarborði, sem er ný íslensk hönnun, er hægt að ferðast um allan Arnarfjörð á landakorti og skoða myndskreyttar skrímslasögur sem birtast þegar farið er um söguslóðir. Borðið á engan sinn líka á landinu og var tilnefnt til Markaðsverðlauna ÍMARK 2010. Um myndvinnslu og myndskreytingar í borðinu  sá Magnús B. Óskarsson. Á skjám eru viðtöl við sjónarvotta og fræðsla um skrímsli og skrímslatrú Íslendinga. Það efni er byggt á heimildarmynd Kára G. Schram um skrímsli á Íslandi

Í setrinu er haldið utanum þær skrímslasögur sem til eru úr Arnarfirði og skráðar nýjar sögur sem berast. Þessar sögur eru hluti af menningararfi okkar sem við eigum að varðveita. Skemmtileg umgjörð sýningarinnar hefur vakið hrifningu gesta og komið skemmtilega á óvart.

Framtíðarsýn:
Þótt athyglisverðum áfanga sé náð er uppbygginu Skrímslasetursins hvergi nærri lokið og er frekari framþróun og útvíkkun safnsins í stöðugri gerjun. Margar skemmtilegar hugmyndir eru á teikniborðinu og verður gaman að fylgjast með hverju fram vindur á komandi árum.

 

Félagslegi þátturinn:
Uppbygging setursins og samvinna brottfluttra og heimamanna hefur skapað ótrúlega samheldni og aukið áhuga löngu brottfluttra Arnfirðinga á því að endurnýja kynnin við heimahagana. Samstarfið við uppbygginguna á setrinu hefur aukið bjarsýni manna sem orðið hefur til þess að margar nýjar hugmyndir um atvinnuskapandi verkefni hafa orðið til.