Skrímslasetrið

Hvers vegna skrímslasetur á Bíldudal

Flestir félagsmenn ólust upp við frásagnir af fjörulöllum og öðrum kynjaskepnum í Arnarfirði. Þeir töldu að þær gætu verið kjörin afþreying fyrir ferðamenn sem hefðu áhuga á að kynna sér menningu og sögu svæðisins og jafnvel fengið þá til að staldra lengur við.

Við undirbúning var leitað til Þorvaldar Friðrikssonar „skrímslafræðings Íslands“ sem hefur safnað skrímslasögum um tuttugu ára skeið.

Í fórum hans má finna hátt í fjögurþúsund frásagnir frá öllum landshlutum. Samkvæmt rannsóknum hans sker Arnarfjörður sig úr hvað varðar fjölda sagna og tegunda og má því segja að staðsetning fyrir skrímslasetur sé hvergi betri en á
Bíldudal.

Mjög metnaðarfullt verkefni

Lagt var af stað með það að leiðarljósi að verkefnið yrði svo vandað að ferðamenn kæmu sérstaklega til þess að skoða það. Til að svo mætti verða voru Árni Páll Jóhannsson leikmyndahönnuður og Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín sem eru meðal fremstu sérfræðinga landsins í hönnun og smíði safna fengnir til liðs við verkefnið sem byggt yrði á sögum Þorvaldar.

Uppbygging húsnæðisins hófst strax og samhliða var unnið við hönnun sýningarinnar. Fjármögnun gekk vel allt fram að hruni bankanna en með elju og útsjónarsemi tókst að opna fyrsta hluta Skrímslasetursins í lok júní 2009, um mánuði síðar en áætlað var í upphafi.

Félagslegi þátturinn

Uppbygging setursins og samvinna brottfluttra og heimamanna hefur skapað ótrúlega samheldni og aukið áhuga löngu brottfluttra Arnfirðinga á því að endurnýja kynnin við heimahagana.

Samstarfið við uppbygginguna á setrinu hefur aukið bjarsýni manna sem orðið hefur til þess að margar nýjar hugmyndir um atvinnuskapandi verkefni hafa orðið til.

Framtíðarsýn

Þótt athyglisverðum áfanga sé náð er uppbygginu Skrímslasetursins hvergi nærri lokið og er frekari framþróun og útvíkkun safnsins í stöðugri gerjun. Margar skemmtilegar hugmyndir eru á teikniborðinu og verður gaman að fylgjast með hverju fram vindur á komandi árum.
©2025 skrímslasetur